x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Harpa fagnar tíu ára afmæli í ár

Yfir 10 þúsund viðburðir haldnir í Hörpu á tíu árum

Í dag var fyrsti tónninn á afmælisári Hörpu sleginn í Eldborg, þegar Svanhildur Konráðsdóttir kynnti helstu áherslur afmælisársins, en Harpa fagnar 10 ára afmæli á þessu ári.

Fyrirhugað er að bjóða upp á tíu afmælispakka á árinu í formi tónlistar, dans og annarra viðburða. Harpa var formlega opnuð þann 13. maí árið 2011 og vígð á Menningarnótt þegar ljósin voru tendruð í fyrsta sinn á glerhjúpnum.

Á afmælisárinu verða í hverjum mánuði frumsýnd á glerhjúp Hörpu ný ljósverk eftir Ólaf Elíasson. Harpa hefur mikilvægu hlutverki að gegna fyrir menningu landsins og ekki síður samfélags- og efnahagslega séð en frá því að Harpa opnaði fyrir tíu árum hafa verið haldnir yfir 10.000 viðburðir og gestakomur líklega á annan tug milljóna.

Afmælisdagskráin hefst í kringum sumardaginn fyrsta, en þann dag hefst Harpa samkvæmt gamla tímatalinu og stendur til fullveldisdagsins 1. desember. 

Nýtt afmælislag Hörpu

Fyrsta verkefni afmælisársins endurspeglar skýrar áherslur hvað varðar börn og fjölskyldur. Harpa ætlar að bjóða 10 ára krökkum að taka þátt í að semja afmælislag fyrir Hörpu. Allir krakkar sem hafa áhuga á tónlist og eru fæddir árið 2011 geta sent inn umsókn í formi myndbands, á netfangið harpa@harpa.is, fyrir 8. mars næstkomandi.

Tíu krakkar fá tækifæri að semja afmælislag sem verður útsett fyrir hóp af börnum undir handleiðslu reyndra tónlistarmanna. Verkefnastjórar afmælislagsins eru þau Ingibjörg Fríða Helgadóttir og Sigurður Ingi Einarsson. Afmælislagið verður svo frumflutt við hátíðlega athöfn í maí næstkomandi en á vordögum mun Harpa beina ljósinu að ungmennum og fjölskyldum og standa fyrir viðburðum til að byggja upp þátttöku og upplifun fyrir þessa hópa. Áherslan í ár er einnig að ná til nýrra hópa sem hafa hingað til ekki mikið sótt Hörpu og tengja við sem flesta með því að kalla eftir sögum, minningum og myndum.

,,Á þessum 10 árum hefur Harpa orðið sannkallað félagsheimili þjóðarinnar; heimavöllur og heimssvið tónlistar, alþjóðlegur vettvangur þekkingarmiðlunar og viðskipta, opinbert móttökuhús Íslands í bland við alþýðlegt borgartorg undir þaki. Þá má eiginlega segja að þetta afmæli verði langþráð opið hús eftir snúið ár af takmörkunum og lokunum. Við viljum opna salina upp á gátt, bjóða upp á sviðin og sýna það sem leynist á bak við. Það eru hvorki meira né minna en 10 fallegir afmælispakkar sem við erum að föndra við að búa til í samvinnu við ótrúlega marga og skemmtilega aðila,“ sagði Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu í Eldborg í dag. Svanhildur sagði einnig að Menningarnótt yrði annar hápunktur á árinu en þá er stefnan að fagna alls kyns breytingum á húsinu sjálfu og nánasta umhverfi. ,,Við höfum nýtt tímann í covid vel til alls konar umbótaverkefna og verður breytingunum að mestu lokið á Menningarnótt. Á 10 ára afmælinu stendur Harpa heldur ekki lengur á barmi holunnar eins og árið 2011 því húsið er komið í spánýtt samhengi við góða granna og nýtt miðborgarhjarta, sagði Svanhildur ennfremur.