x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Framhaldsaðalfundur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.

Framhaldsaðalfundur Hörpu fyrir árið 2016
Haldinn 11. september 2017

Raunhæfari grundvöllur fyrir rekstur Hörpu
Framhaldsaðalfundur Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. var haldinn á Björtuloftum í Hörpu mánudaginn 11. september kl. 16:00, en aðalfundi var frestað í apríl síðastliðnum vegna þess að beðið var eftir úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málefnum Hörpu. Fundinn sátu fulltrúar eigenda, það er ríkis (54%) og Reykjavíkurborgar (46%), auk stjórnar og framkvæmdastjórnar hússins. Á fundinum fluttu Guðfinna S. Bjarnadóttir, stjórnarformaður, og Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri skýrslu um starfsemina á síðasta ári.

Árið 2016, þegar Harpa fagnaði 5 ára afmæli sínu, voru haldnir tæplega 1.300 viðburðir í húsinu – þar af 835 listviðburðir og hátt á fimmta hundað ráðstefnur, fundir og veislur. Nýting á sölum hússins heldur áfram að aukast eða um 22% frá fyrra ári og alls voru 259.000 miðar seldir í gegnum miðasölu Hörpu. Fjöldi heimsókna var tæplega 2 milljónir og er Harpa einn fjölsóttasti ferðamannastaður í Reykjavík.

Rekstur Hörpu árið 2016
Tekjur af starfsemi samstæðunnar jukust um 215 milljónir á milli ára eða um tæp 21% og munar þar langmestu um auknar tekjur af útleigu vegna tónlistarviðburða, ráðstefna og fundahalds – sem hækkuðu um rúmar 180 m.kr. á milli ára og voru 778 m.kr. árið 2016. Þar vógu tekjur af ráðstefnum þyngst eða 25%, þá af listviðburðum eða 19% og vegna fastra leigjenda þ.e. Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar 14%.
Með sérstöku framlagi eigenda til rekstrar sem námu 13% af tekjum voru heildartekjur samstæðunnar alls 1.472 milljónir.
Rekstrargjöldin uxu hins vegar enn meira eða um 319 milljónir. Af því hækkaði húsnæðiskostnaður um 88 m.kr. Launakostnaður hækkaði um 50 m.kr. eða um 11% á milli ára og er það á pari við meðaltalið í þróun launavísitölu á þessu tímabili. Hjá samstæðunni voru 117 á launaskrá í 52 stöðugildum og fjölgaði stöðugildum um 3 á milli ára.

Mesti kostnaðaraukinn var í liðnum aðkeypt þjónusta eða um 151 m.kr. og vegur þar kostnaður vegna viðburða í skammtímaleigu lang þyngst. Þessi kostnaður vex með auknum umsvifum í húsinu en eitt þeirra verkefna, sem enn hefur ekki náðst að leysa, er að finna heilbrigðara jafnvægi á milli tekna og gjalda í þessari kjarnastarfsemi Hörpu. Afkoman versnaði því á milli ára og tap fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITA) samstæðunnar var tæpar 294 m.kr. á móti 210 m.kr. árið 2015. Þegar horft er á afkomuna eftir afskriftir, sem eru rúmar 340 m.kr., fjármagnsgjöld og framlag eigenda til endurgreiðslu á skuldabréfi vegna byggingar og búnaðar, er reikningslegt tap 669 m.kr. og versnar afkoman því um 129 m.kr. á milli ára.

Efnahagsreikningur Hörpu breyttist ekki mikið á milli ára. Fastafjármunir samstæðunnar eru að verðmæti rúmlega 19.5 milljarðar. Eignir samstæðunnar stóðu því í árslok í rúmum 20 milljörðum.

Harpa skilar miklum verðmætum til samfélagsins í formi blómlegrar menningarstarfsemi og gjaldeyrisskapandi ráðstefnuhaldi. Skattaspor Hörpu m.v. ársreikning 2016 var 445 m.kr. og að auki er allur rekstur Hörpu í virðisaukaskatti.

Mat stjórnenda
Væntingar um jafnvægi í rekstri Hörpu hafa því miður ekki gengið eftir. Fjölmargir ytri þættir spila þar stórt hlutverk auk annarra innri þátta er lúta að skipulagi og stjórnun rekstrar.

Í skýrslu stjórnar sem fráfarandi formaður, Guðfinna S. Bjarnadóttir, flutti á fundinum kom fram að þrátt fyrir áherslu á auknar tekjur og minnkandi kostnað þá hefur kostnaður í rekstri Hörpu aukist umtalsvert umfram tekjur. ,,Eins og fram kemur í ársuppgjöri ársins 2016 var taprekstur samstæðunnar um 670 mkr. Þetta eru gríðarleg vonbrigði og skrifast á nokkra þætti í móðurfélaginu, m.a. háan útleigukostnað, háan rekstrarkostnað fasteignarinnar og alltof há fasteignagjöld,“ segir Guðfinna.
Jafnframt kom fram í skýrslunni að fjögur helstu forgangsverkefni Hörpu til næstu ára séu að mati stjórnar og forstjóra að (1) bæta reksturinn (2) létta af rekstrinum gríðarlega þungum kostnaðarþáttum sem snerta fasteignina s.s. viðhaldi og endurfjárfestingu og í því sambandi er rétt að kanna hvort aðskilja beri rekstur fasteignar frá rekstri Hörpu, (3) skerpa á eigendastefnu og þá sérstaklega með það í huga hvaða menningarlega hlutverki Harpa á að þjóna og (4) tryggja nægilegt eigið fé Hörpu.

Staðan í fasteignagjaldamálinu
Hæstiréttur dæmdi í fasteignagjaldamáli Hörpu þann 25. febrúar 2016 og talið var að dómurinn myndi leiða til umtalsverðrar lækkunar fasteignagjalda, jafnvel í kring um 50%. Í meðförum Þjóðskrár, sem skilaði niðurstöðum sínum átta mánuðum síðar, var útfærslan önnur en dómur Hæstaréttar sagði til um. Niðurstöðu Þjóðskrár var andmælt af hálfu Hörpu og kom svo svar aftur frá Þjóðskrá í lok árs um að niðurstaðan myndi standa.

Stjórn Hörpu áfrýjaði niðurstöðu Þjóðskrár til yfirfasteignamatsnefndar í janúar 2017 sem skilaði sínum úrskurði 31. ágúst sl. um einu og hálfu ári eftir að dómurinn féll í Hæstarétti. Yfirfasteignamatsnefnd hafnar því að nota megi sértækan svæðisstuðul fyrir Hörpusvæðið. Þetta gæti þó breyst til framtíðar þegar svæðið byggist upp. Ekki er fallist á rök Hörpu um ofmat á tónleika- og ráðstefnusölunum – sem eru metnir fjórfalt verðmætari en verslunar- og skrifstofuhúsnæði né heldur um virði bílastæða sem Harpa taldi verulega ofmetin af Þjóðskrá.

Með úrskurði sínum felldi yfirfasteignamatsnefnd fasteignamatið frá 2016 úr gildi og Þjóðskrá falið að vinna nýtt mat. Málið er því aftur komið í hendur Þjóðskrár og óvíst er með framvindu þess og þar með endanlega niðurstöðu og áhrif á rekstur Hörpu.

Rekstrarrýning í gangi
Nýr forstjóri sem kom til starfa í maí sl. leiðir nú markvissa rýningarvinnu sem ætlað er að bæta rekstur Hörpu eins og kostur er. Jafnframt er unnið þétt með eigendum Hörpu að því að finna raunhæfan ramma um rekstur og starfsemi hússins sem endurspeglar kvaðir og áherslur í eigendastefnu þess. Svanhildur Konráðsdóttir sagði í yfirliti forstjóra að sér þætti ljóst að hugsa þurfi rekstrargrundvöll Hörpu upp á nýtt. ,,Grundvöllinn fyrir Hörpu þarf að byggja í jöfnum hlutum á raunhæfni og metnaði og þeirri framtíðarsýn sem eigendurnir; ríki og Reykjavíkurborg ákveða að skuli lýsa starfseminni veginn. Án þess er tómt mál að tala um að Harpa sé opin og aðgengileg fyrir allrar tegundir tónlistar eða rísi undir væntingum um menningarlegt hlutverk.“

Nokkrar breytingar urðu á stjórn Hörpu þar sem Guðfinna S. Bjarnadóttir, Ásta Möller og Kjartan Örn Ólafsson láta af störfum. Ný stjórn var kjörin á fundinum en í henni sitja Arna Schram, Árni Geir Pálsson, Birna Hafstein, Vilhjálmur Egilsson og Þórður Sverrisson sem tekur við sem formaður stjórnar.

Allar nánari upplýsingar veitir forstjóri Hörpu, Svanhildur Konráðsdóttir (svanhildur@harpa.is gsm 6939363).