x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Charlotte Hellekant hleypur í skarðið fyrir Anne Sofie von Otter

Fimmtudag 21. mars

Charlotte Hellekant er meðal fremstu söngkvenna Norðurlanda og hefur um áratuga skeið komið fram víða um heim.

Því miður þurftu bæði einsöngvari og hljómsveitarstjóri tónleika hljómsveitarinnar fimmtudaginn 21. mars að aflýsa þátttöku sinni á tónleikunum vegna forfalla. Sænska mezzósópransöngkonan Charlotte Hellekant hleypur í skaðið fyrir von Otter og Bjarni Frímann Bjarnason, aðstoðarstjórnandi Sinfóníunnar, stjórnar tónleikunum í stað Yan Pascal Tortelier. Efnisskrá tónleikanna er óbreytt.

Fluttar verða heillandi útsetningar Josephs Canteloube á frönskum þjóðlögum sem eru hans kunnasta verk og hefur náð miklum vinsældum í flutningi söngkvenna á borð við Victoriu de los Angeles og Kiri Te Kanawa. Tónleikarnir hefjast með fjörugri útsetningu Atla Heimis Sveinssonar fyrir klarínett og hljómsveit á hinu vinsæla Rondo alla Turca eftir Mozart. Eftir hlé hljómar eina sinfónía Bizets, meistaraverk sem hann samdi aðeins 17 ára gamall. Enn í dag er þetta ein frægasta sinfónía fransks tónskálds og vitnisburður um ótvíræða snilligáfu hans.

Í stað hljómsveitarstjórans Yan Pascal Tortelier mun Bjarni Frímann Bjarnasonstjórna tónleikunum. Bjarni Frímann var ráðinn aðstoðarstjórnandi hljómsveitarinnar haustið 2018 og verða þetta fyrstu áskriftartónleikar hans með hljómsveitinni.

Charlotte Hellekant er meðal fremstu söngkvenna Norðurlanda og hefur um áratuga skeið komið fram víða um heim. Hún hefur meðal annars sungið við Metropolitan-óperuna í New York, Parísaróperuna og komið fram á Glyndbourne-óperuhátíðinni í Englandi. Meðal helstu hlutverka hennar eru Charlotte í Werther, sem hún hefur sungið m.a. við Deutsche Oper í Berlín, og Carmen sem hún hefur sungið við Konunglegu óperuna í Stokkhólmi.

Hellekant hefur komið fram með fjölmörgum heimskunnum hljómsveitum og stjórnendum. Má þar nefna tónleika með Christoph von Dohnányi á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall, með Esa-Pekka Salonen og hljómsveitinni Fílharmóníu, og Gustavo Dudamel og Fílharmóníusveit Los Angeles. Á þessu starfsári syngur hún meðal annars við Staatsoper í Berlín og kemur fram á tónleikum með Þjóðarhljómsveit Frakklands þar sem hún syngur Sieben frühe Lieder eftir Alban Berg.

Hellekant hefur einu sinni áður sungið á tónleikum á Íslandi, þegar hún kom fram í óratoríunni Draumur Gerontiusar eftir Elgar með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Háskólabíói árið 2002, undir stjórn Vladimirs Ashkenazy.