x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Kammerhópurinn Camerarctica á Sígildum sunnudegi

Sunnudaginn 3. febrúar kl. 16

Kammerhópurinn Camerarctica kemur fram á næstu tónleikum Kammermúsíkklúbbsins, en þeir verða haldnir sunnudaginn 3. febrúar kl. 16 í Norðurljósasal Hörpu. Á efnisskrá tónleikanna eru verk eftir þrjá af þekktustu merkisberum þýsk-austurrískrar snemmrómantíkur á sviði tónlistar, þá Carl Maria von Weber, Franz Schubert og Felix Mendelssohn, sem allir létust ungir að árum.

Camerarctica-hópurinn hefur frá stofnun árið 1992 verið í fremstu röð tónlistarhópa á Íslandi. Efnisskrá hópsins spannar verk frá barokktímanum allt til nútímans. Undanfarna tvo áratugi hefur hópurinn nær árlega haldið tónleika á vegum Kammermúsíkklúbbsins en eftirtaldir tónlistarmenn skipa hópinn að þessu sinni: Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Ármann Helgason klarínetta, Hildigunnur Halldórsdóttir fiðla, Bryndís Pálsdóttir fiðla, Svava Bernharðsdóttir víóla, Bryndís Björgvinsdóttir selló og Aladar Rácz píanó.

Fyrsta verk tónleikanna er strengjakvartett í Es-dúr op. 44 nr. 3 eftir Felix Mendelssohn frá árinu 1838. Mendelssohn var einstaklega hæfileikaríkur tónlistarmaður og varð ungur þekktur um alla Evrópu fyrir hljóðfæraleik, hljómsveitarstjórn og tónsmíðar. Verk hans einkennast oftar en ekki af lífsgleði og æskufjöri en Es-dúr kvartettinn hefur reyndar nokkuð alvarlegan undirtón þótt verkinu ljúki á nótum bjartsýni. Franz Schubert varð aðeins 31 árs gamall en lét eftir sig ótrúlegan fjölda tónverka, þar á meðal um 600 ljóðasöngva. Sönglagið Der Hirt auf dem Felsen (Hjarðsveinninn á klettinum) fyrir sópran, klarínettu og píanó, sem flutt verður á tónleikunum, varð til í október 1828 og var meðal þess síðasta sem Schubert auðnaðist að setja á blað. Hann lést mánuði síðar. Lokaverk tónleikanna er klarínettukvintett í B-dúr op. 34 sem Carl Maria von Weber samdi á árunum 1811–15 og tileinkaði vini sínum, klarínettusnillingnum Heinrich Bärmann. Bärmann hafði mikil áhrif á þróun og vinsældir klarínettunnar á fyrri hluta 19. aldar og mörg tónskáld sömdu verk fyrir hann. Weber tileinkaði Bärmann langflest klarínettuverk sín og var seinþreyttur að þakka honum vaxandi velgengni sína.

Tónleikarnir á sunnudaginn eru fimmtu og næstsíðustu tónleikar Kammermúsíkklúbbsins á þessu starfsári. Klúbburinn var stofnaður árið 1957 og hefur nú staðið fyrir reglulegu tónleikahaldi í rúm sextíu ár.

Efnisskrá
Felix Mendelssohn (1809–1847):
Strengjakvartett í Es-dúr op. 44.3 (1838)
Franz Schubert (1797–1828):
Der Hirt auf dem Felsen, D 965 (1828)
Carl Maria von Weber (1786–1826):
Klarínettukvintett í B-dúr op. 34 (1811-15)