x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

11 ára tónskáld í Eldborg

Frábærar fréttir úr starfi Upptaktsins

Upptakturinn og Sinfóníuhljómsveit Íslands taka höndum saman þegar Jú víst eftir hina 11 ára Láru Rún Eggertsdóttur verður flutt í útsetningu tónskáldsins Tryggva M. Baldvinssonar, á tónleikunum Tímaflakk í tónheimum þann 5. október. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands – Litli Tónsprotinn.  Á efnisskránni eru verk eftir Monteverdi, Lully, Bach, Jón Leifs, Haydn, Mozart, Beethoven, Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Mélanie Bonis, John Williams, Thea Musgrave og Láru Rún Eggertsdóttur og er því óhætt að fullyrða að Lára Rún er yngsta tónskáldið.

Með Upptaktinum, Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna. Á hverju ári fá 12 verk brautagengi og vinna með nemendum Listaháskóla Íslands bæði í skapandi tónlistarsmiðju svo og einkatíma með nemendum tónsmíðadeildar. Verkin eru svo flutt á glæsilegum tónleikum í Hörpu á upphafsdegi barnamenningarhátíðar í Reykjavík.

Vorið 2019 völdu fulltrúar Sinfóníuhljómsveitar Íslands eitt Upptaktsverkanna til frekari vinnslu og fyrir valinu varð Jú víst. En hvernig er að vera einungis 11 ára og eiga von á því að sitja í fullum Eldborgarsal Hörpu og hlýða á eigið verk flutt af heilli sinfóníuhljómsveit?

Lára Rún Eggertsdóttir stundar píanónám í Tónskóla Sigursveins hjá Laufeyju Kristinsdóttur, Gefum Láru Rún orðið;

„Þetta er bara geggjað.  Ég átti alls ekki von á að fá svona stórar fréttir varðandi verkið mitt.  Verkið sem byrjaði á 4 nótum á píanóinu heima og er núna á leið í Eldborg með Sinfóníunni.  Allt sem gerðist á milli er búið að vera geggjað ferðalag með frábæru fólki. Takk kærlega fyrir mig!“

 

Tímaflakk í tónheimum verður eins og fyrr sagði í Eldborg í Hörpu þann 5.október og er hluti af fjölskyldudagskrá Hörpu þar sem viðburðir fyrir krakka verða allar helgar í allan vetur.

Meðfylgjandi er mynd af Láru Rún Eggertsdóttur ásamt þeim Elfu Lilju Gísladóttur verkefnastjóra Upptaksins, Hjördísi Ástráðsdóttur fræðslustjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Tryggva M. Baldvinssyni tónskáld.