17th April 2023

Una Tor­fa, Gugusar og Unnsteinn Manúel

syngja lög eftir ungmenni í Upptaktinum.

Upptakturinn er tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna þar sem ungmenni í 5.-10. bekk eru hvött til að semja tónlist og senda inn í keppnina. Þau sem komast áfram taka þátt í tónlistarsmiðju með nemendum skapandi tónlistarmiðlunar við Listaháskóla Íslands, auk þess að vinna að útsetningum undir leiðsögn nemenda tónsmíðadeildar Listaháskólans. Að þessu ferli loknu er hið nýja tónverk flutt á tónleikum með atvinnutónlistarfólki og verkin varðveitt með upptöku. Að þessu sinni munu söngvararnir Gugusar, Una Torfa og Unnsteinn Manúel Stefánsson syngja lögin sem á annað borð innihalda söng, en sum laganna eru samin eingöngu fyrir hljóðfæraleik án söngs.

Tónleikar Upptaktsins 2023 fara fram í Norðurljósum þriðjudaginn 18. apríl 2023 kl. 17.00. Á tónleikunum verða frumflutt fjórtán splunkuný tónverk eftir börn og ungmenni. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Upptakturinn er á vegum Hörpu í samstarfi við Barnamenningarhátíð Reykjavíkur, Tónlistarborgina Reykjavík, RÚV og Listaháskóla Íslands. Samstarfsaðilar eru einnig Tónlistarmiðstöð Austurlands, Garðabær, Borgarbyggð, Seltjarnarnesbær, Kópavogsbær og Menningarfélag Akureyrar og tekur Upptakturinn fagnandi á móti fleiri sveitarfélögum sem vilja taka þátt. Markmið Upptaktsins er að stuðla að tónsköpun ungs fólks með því að hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist og aðstoða þau við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju og varðveita þannig tónlistina. Með Upptaktinum er börnum og ungmennum gefið tækifæri á að upplifa eigin tónlist í flutningi fagfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Hörpu. Síðasta haust hlaut Upptakturinn alþjóðlegu verðlaunin YAMawards eða The Young Audiences Music Awards sem besta þátttökuverkefnið fyrir ungmenni. Ungmennin sem valin voru til þátttöku í Upptaktinum 2023 eru eftirfarandi:

Urður Óliversdóttir Emilía Guðnadóttir Iðunn Óliversdóttir Guðrún Filippía Gísladóttir Eydís Anna Ingimarsdóttir Ella Rhayne Guevarra Tomarao Bergur Tjörvi Bjarnason Ólafur Sveinn Böðvarsson Þórey María E. Kolbeins Magnús Thor Holloway Stefanía Þórdís Vídalín Áslaugardóttir Yasna Yousif Mohammed Jökull Hrafn Jakobsson Hrafnhildur Ylfa Jónsdóttir Embla Elmarsdóttir Hér má sjá myndband sem var sett saman í tilefni 10 ára afmæli Upptaktsins. Nánari upplýsingar um Upptaktinn.

Frét­tir