x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Tónskáldið og móðir hans

Þessi viðburður er liðinn

Tilmæli vegna Covid-19

*Athugið takmarkaður miðafjöldi*

Kæru vinir!

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á tónlistar- og sögudagskrá föstudaginn 25.september kl. 19:30 í Hörpu.

Um er að ræða einstaka dagskrá um Sesselju Sigvaldadóttur og son hennar Sigvalda Kaldalóns sem var eitt af okkar þekktustu tónskáldum. Dagskráin gefur innsýn í tímana sem hann lifði, æsku í skjóli móður sinnar og fólksins sem umvafði hann. Hún fjallar einnig um hvernig fólkið við Ísafjarðardjúp hvatti hann til að opinbera tónlist sína.

Höfundur dagskrárinnar er okkar ástsæla leikkona, Grímuverðlaunahafi og heiðurslistamaður Reykjavíkur, Guðrún Ásmundsdóttir.

Flytjendur
Alexandra Chernyshova,  sópran
Gerður Bolladóttir, lýrískur, sópran
Rúnar Þór Guðmundsson, tenór
Jón Svavar Jósefsson, baríton
Einar Bjartur Egilsson, píanóleikari

Guðrún Ásmundsdóttir og séra Bjarni Karlsson flytja sögudagskrána.

Viðburðurinn er settur upp með tilliti til sóttvarna.
Gætt verður að fjarlægðamörkum og takmarkað miðaframboði.

Guðrún Ásmundsdóttir (f.1935) leikari, leikstjóri og höfundur dagskrárinnar.
Guðrún er landsmönnum að góðu kunn fyrir áratuga starf í þágu leiklistar. Árið 2018 fékk Guðrún heiðursverðlaun Grímunnar og árið 2009 varð hún heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur. Árið 2003  skrifaði Guðrúnleikritið Ólafía með Eddu Björgvinsdóttur í aðalhlutverki. Fyrir verkið Kaj Munk sem Leikhúsið í kirkjunni hóf sýningar á 4. janúar 1987, á dánardegi skáldprestsins,  hlaut Guðrún verðlaun frá Bent Koch í Kaupmannahöfn. Verkið var einnig sýnt í Kaupmannahöfn, í Málmey og Vedersö, í sóknarkirkju Kaj Munks.  Árið 2000 gaf Guðrún út barnabókina Lóma um tröllastelpu sem kom til Reykjavíkur til að læra að lesa, því enginn gat lesið í Hrollaugsdal. Guðrún hefur leikið í fjölda kvikmynda, t.a.m. Morðsögu (1977), Hvað býr í blýhólknum (1971), Foxtrot (1988) o.fl.

Alexandra Chernyshova (f.1979) sópransöngkona, tónskáld og kennari.
Alexandra var valin í hóp 10 framúrskarandi ungra Íslendinga árið 2014 fyrir framlag sitt til menningar á Íslandi. Hún lauk M.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands, M.Ed. frá Háskólanum í Kiev, meistaragráðu í óperusöng og söngkennaraprófi frá Odessa tónlistarakademíunni og Kiev Glier High Music College og sömuleiðis BA frá National Kiev Linguistic University, hún lauk 8. stigi í píanóleik frá Kiev Tónlistarskóla N1. Auk þess stundaði Alexandra óperusöngnám hjá Michael Trimble Opera Institute og Katja Ricciarelli Opera Academy, lied og kammer söng hjá Pr.Hanno Blascke sömuleiðis. Hún hóf feril sinn á sviði sem einsöngvari hjá Kiev Academical Musical Theater of Opera and Ballet. Alexandra söng með Kiev National Radio Orchestra, New York Contemporary Opera, auk þess sem hún hefur sungið sem einsöngvari með Óperu Skagafjarðar o.fl. Alexandra hefur sungið víða um Ísland og Evrópu, í New York og líka í Kína og Japan. Alexandra hefur gefið út þrjá einsöngsdiska; Alexandra soprano (2006), Draumur, með rómantískum lögum eftir Sergei Rachmaninov (2008) og You and only you (2011). Nýlega komst Alexandra inn á top tíu lista World Folk Vision alþjóðalegu tónlistarskeppninnar með laginu Ave María úr frumsömdu óperunni Skáldið og biskupsdóttirin.

Gerður Bolladóttir (f.1967) sópransöngkona og tónskáld.
Gerður byrjaði ung að syngja í kirkjunni hjá prestinum föður sínum, en hóf formlegt söngnám 18 ára gömul við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún lauk burtfararprófi í söng undir handleiðslu Sigurðar Demetz Franssonar og stundaði framhaldsnám við Indiana University, School of Music í Bloomington í Bandaríkjunum, þar sem helstu kennarar hennar voru Martina Arroyo og Klara Barlow. Gerður hefur haldið tónleika víðsvegar á Íslandi, Bandaríkjunum, Grænlandi, í Færeyjum og í Pétursborg. Hún hefur aðallega einbeitt sér að ljóðasöng og kirkjutónlist. Árið 2004 kom út diskurinn Jón Arason in memoriam með Gerði og Kára Þormar orgelleikara. Sömuleiðis gaf hún út geisladisk með íslenskum þjóðlögum í útsetningum Ferdinand Rauter og Önnu Þorvaldsdóttur.

Rúnar Þór Guðmundsson (f.1972) tenór söngvari.
Rúnar Þór byrjaði snemma að læra tónlist í Tónlistarskóla Keflavíkur og lærði meðal annars á trompet/althorn og gítar. Árið 1998 byrjaði Rúnar í Karlakór Keflavíkur samfara því hóf hann söngnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undir handleiðslu Sigurðar Sævarssonar . Árið 2001 hóf hann nám í Söngskóla Reykjavíkur undir handleiðslu Guðmundar Jónssonar og samfara því sótti hann einkatíma hjá Sigurði Demetz sem hafði verið stórt nafn í óperuheiminum í Evrópu og meðal annars sungið á La Scala í Mílanóborg á Italíu. Rúnar lauk burtfararpófi í söng árið 2008 með hæstu einkunn undir handleiðslu Guðbjörns Guðbjörnssonar. 2009 flutti Rúnar til Ítalíu þar sem hann sótti einkatíma hjá Kristjáni Jóhannsyni, tenór, sem sungið hefur í stórum óperuhúsum um allan heim. Rúnar Þór hefur tekið þátt í fjölda Masterclass með kennurum frá öllum heimshornum. Árið 2010 var Rúnar Þór í öðru sæti í alþjóðlegri söngvarakeppni í New York. Á námstímanum á Íslandi söng Rúnar í Óperustúdíói Íslensku óperunnar og kom fram á tónleikum á vegum Íslensku óperunnar. Rúnar flutt til Noregs í nokkur ár og tók þátt í fjölda verkefna þar en er núna kominn aftur til Íslands og þegar byrjarður að láta að sér kveða á söngsviðinu. 

Jón Svavar Jósefsson (f. 1977) barítón söngvari
Jón Svavar er barítón, óperusöngvari að mennt frá Universität für Musik und Darstellende Kunst í Vínarborg 2007 og hefur leitað sér frekari menntunar víða, bæði í söng og leiklist, á Íslandi, í Belgíu, Svíþjóð og Austurríki. Hann hefur haldið fjölda einsöngstónleika og verið einsöngvari og kórsöngvari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ungfóníunni og öðrum kammerhópum. Á meðal hlutverka Jóns eru Ábótinn í Carmina Burana eftir Carl Orff og Ólíkindatólið í Annarleik Atla Ingólfssonar. Jón Svavar starfar sem söngvari, leikari, kórstjóri og söngkennari auk þess að koma fram með sjálfstæðum tónlistar-og leikhópum. Ekki má gleyma að hann hefur verið kórstjóri Karlakórs Kaffibarsins frá stofnun þess nafntogaða hóps. Undanfarin ár hefur Jón tekið þátt í frumflutningi sex nýrra ópera eftir íslensk tónskáld og jafnframt unnið ýmis verkefni tengd kvæðasöng og óhefðbundinni raddbeitingu.

Einar Bjartur Egilsson (f.1989) píanóleikari
Einar Bjartur lærði á píanó í Tónlistarskóla Mývatnssveitar, Tónskóla Sigursveins og síðar í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Árið 2013 lék hann einleik í píanókonsert eftir F. Poulenc með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir Listaháskólann lagði hann stund á framhaldsnám í píanóleik í Hollandi. Samhliða náminu samdi hann tónverk og gaf út hljómplötuna Heimkoma árið 2016. Einar hefur spilað með ýmsum tónlistarmönnum bæði hérlendis og í Hollandi. Hann starfar nú sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga ásamt því að leika reglulega með kórum og tónlistarfólki. Hann gaf nýlega út tvær hljómplötur með svissneskum píanóverkum og er um þessar mundir m.a. að vinna við undirbúning óperu og söngleiks auk útgáfu á nýrri plötu með eigin tónlist.

Deila