x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Tatu Kantomaa harmonikusnillingur

Artic Concerts í Hörpu

Þessi viðburður er liðinn

Tatu Kantomaa kemur frá nyrstu slóðum Finnlands, norðan undir heimskautsbaug, þar sem hann býr nú og starfar.  Hann er Íslendingum að góðu kunnur, dvaldi hér með hléum í ein tólf ár, fram til ársins 2008 er hann flutti aftur til Rovaniemi, í Lapplandi.

Tatu var mjög virkur í íslensku tónlistarlífi árin sem hann staldraði hér. Hann hélt fjölda tónleika um allt land, lék með mörgum íslenskum tónlistarmönnum en var líklega einna kunnastur fyrir leik sinn með hljómsveitinni Rússíbönum sem gaf út vinsælar hljómplötur, kom fram í sjónvarpi og hélt tónleika og dansleiki sem seint gleymast.  Tatu tók líka mjög virkan þátt í íslensku leikhúslífi, lék í fjölda leiksýninga, þ.m. sýningum Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki, Cyrano og Édith Piaf.

Tatu hefur, á síðustu árum, einbeitt sér að eigin tónsmíðum.  Hann hefur unnið með leikhús- og sirkuslistamönnum í Lapplandi og samið tónlist við framsæknar sýningar þeirra.  Tónlist Tatu er á köflum undir sterkum áhrifum af franskri harmonikutónlist og Argentískum tangó, einstaklega rytmísk og lífleg.

Samhliða tónlistinni hefur Tatu lagt stund á ljósmyndun, en hin sjónræna hlið norðursins og heimskautaumhverfið hefur haft sterk áhrif á tónsmíðar hans. Tatu málar í tónum, mistískt landslag heimskautanna og laðar fram stemmingu víðerna norðursins með harmonikunni.  Efnisskrá tónleikanna er í tveimur hlutum, Sirkustónar og tónar Lappneska norðursins.

Tónleikar Tatu Kantomaa í Hörpu eru undir merkjum Arctic Concerts sem hefur varpað ljósi á tónlist Norðurslóða, þ.m. Íslands, Færeyja og Grænlands.  Tónleikarnir verða í Flóa, opnu rými á jarðhæð Hörpu.