Ekkert fannst
Litrík og fjörug tónlist frá Spáni og Rómönsku Ameríku
EFNISSKRÁ Isaac Albéniz Fjórir þættir úr Iberia (úts. F. Arbós) Joaquín Rodrigo Concierto de Aranjuez Mélanie Bonis Les Gitanos, spænskur vals Alberto Ginastera Estancia, ballettsvíta José Pablo Moncayo Huapango
HLJÓMSVEITARSTJÓRI Carlos Miguel Prieto
EINLEIKARI Rafael Aguirre
Tónleikakynning í Hörpuhorni kl. 18:00.
Suðræn stemning ríkir á þessum tónleikum enda er lífleg tónlist frá Spáni og Rómönsku Ameríku þar í forgrunni. Albéniz var eitt fremsta tónskáld Spánar í byrjun 20. aldar og gerði föðurland sitt ódauðlegt í glæsilegum píanóverkum, ekki síst hinu stórbrotna Iberia þar sem bæjum og borgum Spánar er lýst af mikilli hugkvæmni. Hér hljómar fjórir þættir verksins í glæsilegri hljómsveitarútsetningu. Einnig hljómar vinsælasti gítarkonsert allra tíma, innblásinn af konungshöllinni í Aranjuez skammt suður af Madríd.
Síðari hluti tónleikanna er helgaður verkum frá Argentínu og Mexíkó. Slagverkshlaðinn ballettinn Estancia hefur að geyma einhverja þá hressilegustu tónlist sem fest hefur verið á blað, og sama gildir um hið fjöruga Huapango eftir mexíkóska píanistann José Moncayo, byggt á líflegum þjóðdansi með sama nafni.
Hinn spænski Rafael Aguirre er einn fremsti gítarleikari heims. Hann hefur leikið konsert Rodrigos opinberlega allt frá 16 ára aldri, hefur hlotið fyrstu verðlaun í fjölda alþjóðlegra keppna og komið fram á tónleikum í 34 þjóðlöndum. Mexíkóski hljómsveitarstjórinn Carlos Miguel Prieto er einnig á heimavelli í þessari tónlist. Hann er fyrrum aðalstjórnandi Fílharmóníusveitarinnar í Mexíkóborg og árið 2019 kaus tímaritið Musical America hann stjórnanda ársins.
Nánar um tónleikana á vef hljómsveitarinnar.