x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Joshua Bell og Alessio Bax

Virtúósar í fremstu röð

Þessi viðburður er liðinn

Fiðlusnillingurinn Joshua Bell snýr aftur!

Hinn óviðjafnanlegi fiðlusnillingur, Joshua Bell, kemur fram ásamt píanistanum Alessio Bax á kammertónleikum í Eldborgarsalnum 20. október 2019 næstkomandi.

Þegar Joshua Bell kom til landsins fyrir tveimur árum lék hann einleik og leiddi kammersveitina Academy of St. Martin in the Fields á ógleymanlegum tónleikum sem fengu einróma lof áheyrenda sem og gagnrýnenda.

„Tónlistin var grípandi, full af ástríðum og spennandi tilþrifum. Bell lék af ótrúlegum glæsibrag… frábær einleikari og hljómsveit. Með bestu tónleikum ársins.“ – Jónas Sen um tónleika Joshua Bell og St. Martin in the Fields í Eldborg 21. nóvember 2017.

Joshua Bell er án efa einn virtasti fiðluleikari samtímans og stærstu fréttamiðlar heims hafa verið ósparir á lofið:

“Mr. Bell stendur ekki í skugga neins.” – The New York Times

“Joshua Bell er mesti fiðluleikari Bandaríkjanna í dag.” – The Boston Herald

Með Joshua Bell er píanóleikarinn Alessio Bax. Hið virta tónlistartímarit Gramophone lýsir Alessio Bax með eftirfarandi hætti:

„Alessio Bax er án efa meðal fremstu píanóleikara dagsins í dag og sameinar í leik sínum óvenjulega næmni og innsýn og fullkomna tækni“

Saman ætla þeir Bell og Bax að bjóða upp á úrvals efnisskrá verka fyrir fiðlu og píanó í sannkallaðri tónlistarveislu í Eldborg þann 20. október kl 19:30, sem verður vafalítið meðal hápunkta ársins í Hörpu.

Frekari upplýsingar um Joshua Bell má nálgast á heimasíðu hans joshuabell.com

Hér má lesa dóm Jónasar Sen í Fréttablaðinu um síðustu heimsókn Joshua Bell

___________________________________________________________________________________

Efnisskrá:

Franz Schubert: Rondo Brillante í h-moll, D. 895
Cesar Franck: Sonata í A-dúr fyrir fiðlu og píanó
HLÉ
Johann Sebastian Bach: Fiðlusónata No. 4 í c-moll, BWV 1017
Eugene Ysaÿe: Einleikssónata No. 3 í d-moll, Op. 27, „Ballade“
Verk sem kynnt verða á tónleikunum af listamönnunum

___________________________________________________________________________________

Um Joshua Bell
Joshua Bell er einhver virtasti fiðluleikari samtímans, en ferill hans sem einleikari, kammertónlistarmaður og stjórnandi nær yfir meira en 30 ár. Auk þess hefur hann leikið inn á fjölmargar hljómplötur. Frá árinu 2011 hefur Bell starfað sem tónlistarstjóri hjá bresku kammerhljómsveitinni Academy of St Martin in the Fields, en þar tók hann við keflinu af Sir Neville Marriner sem stofnaði hljómsveitina árið 1958.

Bell hefur komið að flutningi fjölbreyttra tónlistarverka, bæði þekktra klassískra verka og nútímatónlistar. Þeirra á meðal má nefna fiðlukonsert eftir Nicholas Maw, en fyrir þann flutning hlaut Bell Grammy®-verðlaun. Hann hefur lagt ríka áherslu á að höfða til breiðari hóps tónlistarunnenda, og hefur meðal annars unnið með Chick Corea, Wynton Marsalis, Chris Botti, Frankie Moreno og Josh Groban. Vorið 2019 fór Bell ásamt sellóleikaranum Steven Isserlis og píanóleikaranum Jeremy Denk í tónleikaferðalag um tíu borgir í Bandaríkjunum.

Bell leikur á Huberman Stradivarius-fiðlu frá árinu 1713, með 18. aldar François Tourte-fiðluboga. Meðleikari hans í Eldborg er hinn heimsþekkti píanóleikari Alessio Bax.

Um Alessio Bax
Alessio Bax lauk námi undir handleiðslu Angela Montemurro aðeins 14 ára gamall og hlaut hæstu einkunn frá listaskólanum í Bari í heimaborg sinni á Ítalíu. Hann vakti fyrst athygli þegar hann hlaut fyrstu verðlaun í alþjóðlegum píanókeppnum í Leeds og Hamamatsu og er nú vel þekktur um allan heim. Hann starfar bæði sem einleikari og með kammerhljómsveitum og hefur komið fram sem einleikari með yfir 100 hljómsveitum, þar á meðal Konunglegu fílharmóníusveitinni, Fílharmóníusveit Lundúna og Fílharmóníusveit St. Pétursborgar, sinfóníuhljómsveitum í Boston, Dallas, Cincinnati, Sydney og Birmingham og NHK-sinfóníuhljómsveitinni í Japan. Hann hefur leikið undir stjórn margra virtustu hljómsveitarstjóra heims og má þar nefna Marin Alsop, Vladimir Ashkenazy, Sir Andrew Davis, Sir Simon Rattle, Yuri Temirkanov og Jaap van Zweden.