Ekkert fannst
Þessi viðburður er liðinn
Corona & Söknuður – ný íslensk strengjaverk
Tónskáld: Kristín Lárusdóttir og Hrólfur Sæmundsson Hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi: Ólöf Sigursveinsdóttir
Flytjendur Hrólfur Sæmundsson baritón Kristín Lárusdóttir kvæðakona Ármann Helgason klarínett Íslenskir strengir
Í ljósi herta samkomutakmarkana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur tónleikunum verið frestað.
Íslenskir strengir snúa nú aftur upp á svið í Norðurljósum og flytja glæný íslensk strengjaverk. Tónskáldin Hrólfur Sæmundsson og Kristín Lárusdóttir verða í miðpunkti og koma einnig bæði fram á tónleikunum.
Söknuður eftir Kristínu Lárusdóttur, sem upphaflega var samið fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, er skrifað fyrir kvæðasöng, strengi og klarínett við ljóð Ólínu Andrjesdóttur. Baðstofustemning einkennir þetta litríka og magnaða verk og klarinettuleikur Ármanns Helgasonar sem og kvæðasöngur sjálfs tónskáldsins krydda það á skemmtilegan hátt.
Corona er strengjaverk eftir Hrólf Sæmundsson. Tónskáldið og baritónsöngvarinn var að jafna sig eftir veikindi af hinni lúmsku veiru þegar hann tók himininn höndum og sköpunarkrafturinn fékk útrás við að semja fyrir Íslenska strengi. Hrólfur hefur sungið sig inn í hjörtu Evrópubúa síðastliðin ár í hinum víðfeðma óperuheimi og syngur nú með Íslenskum strengjum á þessum tónleikum. Corona er ekki fyrsta tónsmíð Hrólfs en líklega sú stærsta því hún er hálftími að lengd og geislar af kímni og hugmyndaauðgi þessa fjölhæfa listamanns.
Ólöf Sigursveinsdóttir er bæði hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi hópsins sem var stofnaður árið 2017. Íslenska strengi skipa atvinnuhljóðfæraleikarar sem hittast nú aftur eftir rúmlega árs hlé. Laugardaginn 10. apríl flytja þau sömu efnisskrá í Hveragerðiskirkju kl. 18.