x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Hlýir vindar  – Blásaraoktettinn Hnúkaþeyr

Sígildir sunnudagar

Þessi viðburður er liðinn

Blásaraoktettinn Hnúkaþeyr leikur fimm ólík verk íslenskra höfunda á tónleikum í Norðurljósasal Hörpu sunnudaginn 3. desember kl 17. Tónleikarnir eru hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar og bera heitið Hlýir vindar sem vísar til nafns kammerhópsins. Tengsl við náttúrustemmningar eru ávallt skammt undan. Myndlistarkonan Hrund Atladóttir skreytir með vídeólist til að auka tónlistinni vídd og upplifun. Þetta verða tónleikar sem veita birtu og yl í skammdeginu.


Frumflutt verður Chorale eftir Sigrúnu Kristbjörgu Jónsdóttur, blússkotin ballaða sem hún umritaði fyrir Hnúkaþey á haustdögum 2017. Tvö tónverkanna eru samin sérstaklega fyrir Hnúkaþey, Andar eftir Önnu Þorvaldsdóttur og …það kemur, …það fer eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Andar er frá árinu 2008,  innblásið verk frá námsárum Önnu í San Diego í Bandaríkjunum þar sem andardráttur og öldufall leika stórt hlutverk. Verk Elínar frá árinu 2011 kemur og fer eins og vatnið sem streymir áfram endalaust.  


Nonett
eftir Pál Pampichler Pálsson og Scherzo eftir Herbert H. Ágústsson eru elstu verk efnisskrárinnar, litrík og kraftmikil. Þau eru samin árið 1984 fyrir sveitina Ensemble Reykjavik-Wien sem frumflutti þau í Vín sama ár og er hljóðfæraskipanin blásaraoktett og trompet. Páll og Herbert eru báðir fæddir í Austurríki og fluttu til Íslands um miðja síðustu öld þar sem þeir vörðu starfsævi sinni í þágu íslensks tónlistarlífs. Herbert lést í júní 2017 en Páll Pampichler er nú búsettur í Graz í Austurríki.


Tónverkin sem leikin verða á tónleikunum eru væntanleg á geisladiski í flutningi Hnúkaþeys.

Blásaraoktettinn Hnúkaþeyr var stofnaður árið 2003 og er samkvæmt 250 ára hefð skipaður tveimur óbóum, tveimur klarinettum, tveimur hornum og tveimur fagottum. Hópurinn hefur flutt þau íslensku verk sem til eru fyrir þennan hljóðfærahóp auk margra erlendra verka.

Stjórnandi á tónleikunum er Carlos Caro Aguilera en Hnúkaþey skipa Peter Tompkins og Eydís Franzdóttir á óbó, Ármann Helgason og Rúnar Óskarsson á klarinett, Emil Friðfinnsson og Frank Hammarin á horn, og Snorri Heimisson og Kristín Mjöll Jakobsdóttir á fagott. Trompetleikari er Baldvin Oddsson.

Tónleikarnir eru styrktir af Styktarsjóði SUT og Ruthar Hermanns, og Menningarsjóði FÍH.