x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Debussy og Prokofíev – Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þessi viðburður er liðinn

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma tvö lykilverk 20. aldar en einnig nýleg verðlaunatónsmíð sem farið hefur sigurför um heiminn. Sergej Prokofíev samdi fimmtu sinfóníu sína á aðeins einum mánuði sumarið 1944, þegar síðari heimsstyrjöldin geisaði. Þetta er kraftmikil og glæsileg tónsmíð og hefur lengi verið meðal hans vinsælustu verka. Af allt öðrum toga er ljóðrænn einþáttungur Debussys, Síðdegi skógarpúkans. Þetta er tímamótaverk í sögu tónlistarinnar og litrík tónlistin er innblásin af ljóði um drauma og langanir skógarpúka í síðdegissvækju.

Hin bandaríska Jennifer Higdon er meðal fremstu tónskálda Bandaríkjanna. Hún hlaut hin virtu Pulitzer-verðlaun árið 2010 fyrir fiðlukonsert sinn, sem hún samdi fyrir Hilary Hahn. Í rökstuðningi sagði dómnefnd Pulitzer-verðlaunanna að þetta væri „sérlega heillandi verk sem hefur að geyma bæði tæra ljóðrænu og glæsileg tæknitilþrif“. Gagnrýnandi tímaritsins Gramophone var á sama máli, sagði konsertinn „hrífandi og litríkan“. Þetta glæsilega verk hljómar nú á Íslandi í fyrsta sinn.

Í hlutverkum einleikara og stjórnanda eru tveir ungir Bandaríkjamenn sem eiga sannarlega framtíðina fyrir sér. Benjamin Beilman er fyrrum nemandi þýska fiðlusnillingsins Christians Tetzlaff og ferðast nú heimshorna á milli með hljóðfæri sitt, Stradivarius-fiðlu frá árinu 1709. Hann hlaut nýverið frábæra dóma fyrir fyrsta geisladisk sinn; gagnrýnendur New York Times og The Strad lofsungu bæði þróttmikla spilamennsku hans og tilfinningu fyrir hinu ljóðræna.

Roderick Cox hefur undanfarin ár gegnt starfi aðstoðarstjórnanda hjá Minnesota-hljómsveitinni, þar sem Osmo Vänskä er við stjórnvölinn. Hann hefur vakið mikla eftirtekt fyrir kraftmikinn og nákvæman stjórnunarstíl og hlaut nýverið hin virtu Solti-verðlaun sem veitt eru ungum hljómsveitarstjórum.

EFNISSKRÁ
Claude Debussy Forleikur að Síðdegi skógarpúkans
Jennifer Higdon Fiðlukonsert
Sergej Prokofíev Sinfónía nr. 5

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Roderick Cox

EINLEIKARI
Benjamin Beilman

Tónleikakynning í Hörpuhorni » 19. sep. kl. 18:00