x checkmark sr arrow-right brouchure calendar check clock close compass conference download easel epal facebook food-and-shopping food fullscreen grid halls harpa-icon harpa sinfo instagram leaf like listi magnify mail menu minify minus move music opera pictures play plus qoute recording search select-alt select shopping simple-arrow-left simple-arrow-right sitemap telephone ticket twitter youtube spotify snapchat linkedin youtube

Brahms og Tsjajkovskíj – Sinfóníuhljómsveit Íslands

Þessi viðburður er liðinn

Á þessum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóma tvö stórbrotin meistaraverk tónlistarinnar frá síðari hluta 19. aldar. Píanókonsert nr. 2 eftir Brahms er eitt hans stærsta og kröfuharðasta verk. Konsertinn er þó ekki síst þekktur fyrir yndisfagran hæga kaflann, þar sem einleiksselló og píanó leika saman ljóðrænan dúett.

Sjötta sinfónían var síðasta verk Tsjajkovskíjs, sem andaðist níu dögum eftir frumflutninginn. Margir líta svo á að sinfónían sé eins konar hinsta kveðja og að með henni hafi tónsmiðurinn fengið útrás fyrir þær sálarkvalir sem hann leið síðustu mánuðina sem hann lifði. Meðan á æfingum stóð á hann að hafa sagt: „Þetta er án efa besta – og sannarlega einlægasta – tónsmíð mín, og mér þykir vænna um hana en nokkurt annað verk sem ég hef skapað.“

Stephen Hough er einn virtasti og fjölhæfasti píanóleikari samtímans. Hann hlaut hin eftirsóttu MacArthur-verðlaun fyrstur klassískra tónlistarmanna, hefur hljóðritað yfir 50 geisladiska og hlotið átta Gramophone-verðlaun auk fjölmargra tilnefninga til Grammy-verðlauna. Hann leikur nú á Íslandi í þriðja sinn, en eftir fyrstu tónleika hans hér sagði gagnrýnandi Morgunblaðsins að hann væri „einstakur píanóleikari með magnaðan áslátt, gríðarlega öflugan en líka unaðslega mjúkan“.

Hin suður-kóreska Han-Na Chang hóf feril sinn sem sellóleikari, var nemandi Rostropovitsj og lék einleik með mörgum helstu hljómsveitum heims. Hún hefur á síðustu árum snúið sér að hljómsveitarstjórn með frábærum árangri og hefur verið aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi frá árinu 2017.

EFNISSKRÁ
Johannes Brahms Píanókonsert nr. 2
Pjotr Tsjajkovskíj Sinfónía nr. 6

HLJÓMSVEITARSTJÓRI
Han-Na Chang

EINLEIKARI
Stephen Hough

Tónleikakynning í Hörpuhorni » 10. okt. kl. 18:00